Stafrænn Hákon ...eignast jeppa

Söfnun hafin á 20 ára afmælis viðhafnarútgáfu plötunnar á 3-földum vinyl

Platan:

Stafrænn Hákon hefur ákveðið í gegnum Karolina Fund að leitast eftir að hópfjármagna þessa afmælisútgáfu plötunnar.

Það er okkur sönn ánægja að bjóða ykkur viðhafnarútgafu af Eignast Jeppa í vínylplötuformi með öllum upprunalegu lögunum ásamt spennandi aukaefni sem ætti að kæta hliðholla hlustendur okkar mjög
Eignast Jeppa er vissulega barn síns tíma í síbreytilegri veröld Stafræns Hákons. Að sama skapi er væntumþykjan mikil í garð plötunnar. Stafrænn Hákon var hugarfóstur Ólafs Josephssonar en hann sá um allar tónsmíðar, hljóðupptökur og framleiðslu Eignast Jeppa á sínum tíma. Platan er skýrt dæmi um hversu hrár og skapandi Ólafur var við upphaf ferils síns.

Allar lagasmíðarnar á plötunni voru öðrum þræði einskonar tilraunir í tónum sem flæddu fram ferskar og nýbakaðar og voru þannig fangaðar í sínu tærasta formi gegnum huga og hendur Stafræns Hákons.

Lágstemmd og naumhyggjuleg tónlistin, sem kom fram á sjónarsviðið sem ferskur andvari þegar platan dúkkaði upp óforvarendis í hillum hinnar sálugu hljómplötuverslunar Hljómalind og hinnar rótgrónu 12 Tónar.

Kynlegt hljómsveitar-nafnið Stafrænn Hákon spurðist fljótt út á meðal tónlistaráhugafólks og gaf til kynna að hér væri á ferðinni upprennandi tölvutónlistarmaður sem framkallaði tónlist sína með stafrænum tækjum og tólum. Svo var þó ekki. Stafrænn Hákon var nefninlega hliðrænn, og vel það.

Platan þótti hafa heppnast ágætlega og var flokkuð undir sveimrokk hattinn sem hafði rutt sér til rúms á Íslandi á þessum tíma.

Platan var reyndar gefin út 2 árum síðar árið 2003 á vegum hinnar bandarísku útgáfu Secret Eye. En þá hafði Stafrænn Hákon snurfusað öll lögin á plötunni svo hún myndi nú hljóma skikkanlega erlendis að hans mati og í hans eyrum.

Á þessari viðhafnarútgáfu fá lögin nú að njóta sín í sínu upprunalega ástandi tuttugu árum síðar.

Hrátt tónkjöt beint frá tónbýli..

Endurvinnslan

Þegar hugmyndin að þessari afmælisútgáfu kviknaði var farið að skoða hvort eitthvað af efninu frá þessum tíma væri ennþá til á gömlum kassettum í nothæfu ástandi.

Sú var raunin og vel það því nokkur laganna sem ekki rötuðu á plötuna fundust og fá þau að fljóta með í þessari afmælisútgáfu.

Við frekara grams í gegnum gamlar kassettur fundust þó nokkrar hugmyndir sem voru í hrárri kantinum og eiginlega óhæfar til útgáfu. Því var tekin sú ákvörðun að taka þetta ferli skrefinu lengra. Stafrænn Hákon brá því á það ráð að koma sér eins nálægt því hugarástandi sem hann var í á þessum tíma og endurhljóðrita 6 gamlar hugmyndir ásamt öllum 7 upprunalegu lögunum sem prýddu plötuna á sínum tíma.

Þetta hugarástand sem platan var upphaflega samin og hljóðrituð í er skiljanlega aldrei hægt að endurupplifa né endurtaka enda 20 ár liðin og margt vatnið runnið til sjávar síðan þá.

Hinsvegar var þetta ferli allt mjög gefandi já og þroskandi fyrir Stafrænan Hákon. Niðurstaðan varð á endanum sú að Eignast Jeppa inniheldur í rauninni alls 13 nýjar upptökur.

Einnig má finna hljómsveitar-útgáfu aflaginu Sítrónudurgur sem er eina lagið af þessari plötu sem hljómsveitin hefur gjarnan leikið sér með í gegnum tíðina.

Að lokum má geta þess að nokkrir þekktir raf-tónlistarmenn sem Stafrænn Hákon hefur haft miklar mætur á í gegnum tíðina sjá um að endurhljóðblanda nokkur lög.

Stafrænn Hákon er mjög ánægður með þetta efni sem hlustendum er boðið uppá. Það er vissulega barn síns tíma. Engu að síður er tilvist þess áþreifanleg staðreynd og því ber að fagna.

Platan náði ekki inn á vinsældalista sem slík en hún markar vissulega spor í sögu sjálfbærrar útgáfustarfsemi á Íslandi.Er því ekki tímabært, kæri hlustandi, að þú eignist jeppa?

Upphaf Stafræns Hákonar

Það var árið 1995 að tveir ungir drengir fóru að spjalla saman í félagsfræðiáfanga í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti um tónlist sem þeir höfðu verið að garfast í og uppgötva fyrr um sumarið. Þeir voru nokkuð sammála um ágæti hinna ýmissa tónlistarstefna sem bar á góma. Áður en þeir vissu af hafði úr orðið hljómsveitin “Sulllaveiki Bandormurinn“. Sú hljómsveit hélt sér þó að mestu leyti í skítugum æfingarhúsnæðum næstu 2-3 árin og æfði lög sem heyrðust ekki utan þeirra veggja. Þeim tókst þó að leika á einum hljómleikum í hátíðarsal Fjölbrautarskólans áður en hún leystist upp endanlega árið 1999, eftir að meðlimir misstu móðinn sökum stefnu og metnaðarleysis sem virtist hafa tekið bólfestu í hljómsveitinni. Einn meðlima hljómsveitarinnar hafði þó árið 1998 í ferð seinni til stórborgarinnar New York fest sér kaup á fjögurra rása kasettu-upptökutæki sem ætlað var til að festa niður hugmyndir sem upp kæmu við ýmist gítargutl. Margar kasettur fylltust af efni og misjafnar hugmyndir fóru að taka á sig mynd. 

Þó nokkuð myndarlegt safn af einhverskonar lagavísum hafði Ólafi Josephssyni náð að koma inná kasettuapparatið. Vopnaður kasettuapparatinu, gítar, bassa og tölvuforritinu Fruity Loops, hafði Ólafur komist á bragðið og farinn að átta sig ágætlega á því hvernig setja mætti saman lagahugmyndir, vopnaður slíkum verkfærum. Jú, hægt var að smíða tölvudrifinn trommutakt í forritinu Fruity Loops (tölvu-trommuheili sem kallast víst FL Studio í dag og er víða notaður) sem virtist vera lausnin sem hann hafði ekki órað fyrir að væri framkvæmanleg áður en sú uppgötvun varð að veruleika. Hófst því framleiðsla á tónum sem var skjalfest á kasettuapparatið. 

Hughrifin komu úr ýmsum áttum þegar að lagasmíðunum kom, en Ólafur heillaðist einkar mikið af hráum lágstemmdum tónum sem hann hafði heyrt úr verkum eftir listamenn eins og fyrstu verk Sebadoh, Aerial M, Flying Saucer Attack, Labradford, Joy Division, Sonic Youth og jafnvel Mogwai. Á sama tíma var naumhyggjan skammt undan þar sem endurtekningar eru jafnan taldar af hinu góða. Sami hljómagangurinn því endurtekinn útí hið óendanlega sem vekur upp einhverskonar dáleiðslu hughrif oft á tíðum eins og má heyra gjarnan  í verkum Steve Reich. Ólafur, hins vegar, var nokkuð meðvitaður um sín takmörk sem tónsmiður og verkin sem hann dundaði sér við oft fljótgerð og afgreidd án mikillar fyrirhafnar. Mætti kannski segja að það sé einmitt það sem gerir fyrsta verk Ólafs, sem nú hafði tekið upp nafnið Stafrænn Hákon, örlítið heiðarlega nálgun á sína fyrstu sköpun. Nafnið Stafrænn Hákon hafði komið upp í spilinu Fimbulfamb sem Ólafi þótti nokkuð hnyttið nafn á tónlistarverkefni sökum súrleika þess og andstæðu í rauninni því tónlistin var jú að mestu leyti, ef ekki öllu, hliðræn á þessum tímapunkti. 

Safnast höfðu upp fjölmargar hugmyndir á kasettuapparatið og miklar framfarir höfðu átt sér stað í sköpunarferlinu. Viss farvegur mótaðist til sköpunar og hugmyndirnar hrönnuðust upp á nokkuð skipulagðan en þó óskipulagðan hátt um leið. Sköpunarferlið var til staðar en Ólafur var óþreyjufullur og vildi framkalla músíkina óhindrað fremur en að festast í hugmyndum sínum í lengri tíð þangað til þær væru samþykktar af einhverjum ímynduðum dómara. Úr varð einskonar einföld nálgun á upptökutækni og tónlistin var frumsamin og tekin upp um leið og hún framkallaðist, þ.e. hugmyndir voru teknar upp leið og þær fæddust án málamiðlana. Einhverskonar rytmi var smíðaður og hann færður á kasettuapparatið. Því næst var gutlað á gítar eða bassa og um leið og eitthvað mynstur hafði komið upp var ýtt á upptökutakkann og hugmyndin því fullmótuð og þar við sat. Platan “Eignast Jeppa” innhélt 8 slíkar lagasmíðar sem mætti kannski heldur kalla lagahugmyndir fremur en fullmótuð lög sökum einfaldleika þeirra og óheflaðrar spilamennsku. Þessi aðferðarfræði var Ólafi hentug sökum sinna takamarkana sem hljóðfæraleikara, en heiðarleg spilamennskan var berskjölduð og svo barnalega ófullkominn að flestir ágætlega kunnugir tónlistarmenn hefðu bitið þéttingsfast í handarbakið þegar Ólafur hafði lokið verki sínu. 

En hvernig á að koma músik í eyru almennings? Jú, hægt er að gera plötu og láta gefa þetta út af einhverju útgáfufyrirtæki eins og Skífan og fleiri aðilum. Það var nokkuð ljóst að lagahugmyndir sem hér voru annars vegar voru seint að fara að hrífa útsendara Skífunnar, þvert á móti. Þegar hér er komið sögu var alnetið nokkuð ferskur andvari á þessum tímum og Ólafur hafði komist yfir heimasíðusvæði í gegnum póstþjónustu hjá islandia.is. Heimasíða var smíðuð og nokkrum lögum stillt þar upp. Gæluverkefni vissulega, en þó ágætis hugmynd að koma upp heimasíðu sem hýsir verk á mp3 formi sem var auðvitað á allra manna vörum um aldamótin og var vitaskuld framtíðin. Stafrænn Hákon hóf því göngu sína á gáttum alnetsins sem virtust óteljandi. Síður eins og mp3.com og hin íslenska jón.is voru gáttir sem heilluðu óhertan listamann sem gat komið efni sínu berskjölduðu á framfæri. En var þetta nóg? Þarf tónlistin ekki að vera fest á plast til að teljast til skjals? Jú, mikil ósköp. Næsta verkefni væri einmitt að finna leið að því hvernig maður framleiðir sinn eigin geisladisk og gefa sjálfur út plötuna sem auðvitað hvert mannsbarn beið spennt eftir. Geisladiskur þótti töff og þykir enn.

Sem mikill tónlistarunnandi sjálfur var ekkert annað til málsbóta en að sjóða saman plötu sem hægt væri að halda á með puttunum, spila í geislaspilara og sjá hýsta í nýlökkuðum rekkum meðal afurða annarra tónlistarmanna. Hvílík uppljómun. Þetta skyldi framkvæmt.

Um vorið 2001 voru nú 8 stykki af lagbútum komnir með nöfn og þeim raðað í handhófskennda röð. Nú tóku við miklar æfingar og kúnstir framkvæmdar í hinu magnaða forriti Paint þar sem kápa plötunnar var hönnuð úr samsuðu af myndum af yngri bróður Ólafs auk handahófskenndra mynda. Myndir sem teknar voru á nýlega stafræna Epson myndavél hans og prýddu þær forsíðu og baksíðu plötunnar. 

Næsta verk var einfaldlega að skunda í margmiðlunarbúðina Verði Ljós sem stóð forðum daga við Grensásveg og þar voru fest kaup á 100 geisladiska plasthulstur sem hýsa áttu þessa afurð. Nokkuð ljóst að nú var tími til kominn að uppfæra áðurnefnda Microsoft Paint kunnáttu yfir í hið margómaða Photoshop sem gerir fólki kleift að stilla betur af myndastærðir svo hægt væri að koma þeim í þessi glitrandi plasthulstrið. Heilmikið föndur átti sér stað. Klippt, límt, geisladiskar skrifaðir hver á eftir öðrum og á þá tússaðir heiti plötunnar. Ekki var eftir neinu að bíða þegar hér er komið við sögu. Nú var að taka skrefið. Rífa í sig kjark, hégóma og trítla niður í Hljómalind og 12 Tóna sem voru Mekka jaðartónlistar á Íslandi á þessum tíma, með glænýja plötu í hönd. Menn sóttu fast í Hljómalind og 12 Tóna í tíma og ótíma leitandi að spennandi tónum til innbyrða sér til yndisauka og innblásturs. Í búðinni störfuðu miklir herramenn sem virtust nokkuð opnir fyrir nýjungum. Ólafur hafði einmitt verið tíður gestur í búðinni og spjallað við starfsmenn um hinar ýmsu tónlistarstefnur sem höfðu verið að ryðja sér til rúms. Þegar hér kemur við sögu var Ólafur tvístígandi hvort hann ætti eitthvað erindi með sitt efni í slíka plötubúð, slík var goðsögnin viðloðandi við þennan stað.

Mikil ósköp, það tekur tíma að byggja upp hégómann og mæta með nýja plötu til að fá að selja í slíku neðanjarðarvirki, sérstaklega þar sem enginn hafði heyrt um þennan listamann getið. En svo fór sem fór. Ólafur mætti með 10 stykki af þessari nýbökuðu plötu sem hann hafði framleitt að öllu leyti sjálfur, engin aukahönd lögð á plóg. Starfsmenn Hljómalindar á þessum tíma, þeir Árni Viðar, Kristján, eigandinn og hugsmiðurinn Kiddi Kanína, tóku þessu verki með opnum örmum og voru viljugir að stilla upp plötunni í búðinni. Ólafur er hér hreinlega að rifna úr spenningi og stolti um leið og þeir samþykkja þennan annars stórfenglega umboðssölusamning sem átti sér stað í byrjun sumarsins 2001. “Eignast Jeppa” var komin í hillurnar. Hvað svo? Jú, lífið hélt áfram og ekkert breyttist við þessa umboðsölu svo sem. Nokkrum dögum eða vikum seinna ákvað Ólafur að kíkja við í Hljómalind sem hann gerði reglulega á þessum tímapunkti til að kíkja á úrvalið sem fylgdi nýjustu sendingunni og auðvitað að athuga hvort einhver hafi veitt plötunni sinni athygli. Viti menn, fyrsta sjónin kom honum í opna skjöldu. Platan sat fremst í “Hljómalind mælir með.. “ hillunni. Þetta þótti Ólafi nokkuð gott og jafnvel greip um sig tilfinning umvafinn stolti og þakklæti. Rödd starfsmanna Hljómalindar við komu Ólafs í búðina var nokkuð jákvæð í garð plötunnar. Þeim þótti platan prýði vel til heppnuð sem kætti listamanninn sem þakkaði fyrir þá jákvæðu strauma sem bárust. Má því segja að hér hafi tónlistarferill Stafræns Hákons hafist.