Föstudaginn 13. september 2024 mun hljómsveitin Stafrænn Hákon gefa út á vegum Vogor Records tvær geislaplötur. Glæný afurð "Gler/Hanski" og endurútgáfa á afurðinni "Ventill/Poki".
"Ventill/Poki" kom út upphaflega 13.september 2004 og á því 20 ára afmæli á þessum degi, því ber að fagna. "Gler/Hanski" er svo glænýtt efni, þó svo megi rekja efnið til daga Ventilsins.
Platan "Ventill/Poki" kom upphaflega út 13.september 2004. Enska útgáfyrirtækið Resonant gaf hana út og hélt hljómsveitin í 3 vikna tónleikaferð um Bretland í kjölfarið. Núna 20 árum seinna fær platan að njóta sín í endurhljóðblönduðu formi. Platan þótti vera þó nokkuð jákvætt stökk fyrir hljómsveitina þar sem í fyrsta skipti var farið í hljóðver og lifandi trommur fengu að fljóta með í stað trommuheila sem hafði einkennt fyrstu 3 afurðir Stafræns Hákons. Stafrænn Hákon hafði einnig verið undir miklum áhrifum frá raftónlist þegar hér kom við sögu og heyrist það hvernig raftaktarnir umlykja lifandi trommurnar.
Þéttleikinn var meiri enn fyrr og notkun sveimandi gítara var einnig áberandi.
Platan var gjarnan flokkuð sem síðrokk af hlustendum og skilur Stafrænn Hákon þá flokkun mæta vel, enda ekkert við þá stefnu að sakast. Greina má glögglega að hér eru áhrifin víðari en einungis úr síðrokkinu, en sveimandi hljóðheimurinn og oft á tíðum sí-endurtekningar gjörn lögin eiga sér skírskotun víðsvegar í tónlistarsögunni eins og lagið Górecki Magnús sem þó ekki þarf að útskýra neitt sérstaklega, áhrifin glögg.
"Gler/Hanski," er glæný afurð með tíu lögum. Innihald plötunnar má rekja til ársins 2003-2004 þegar platan "Ventill/Poki" var í smíðum. Lögin sem um ræðir lágu ósnert í skúffu Stafræns þangað til núna. Hugmyndin var einfaldlega að smíða efni með skírskotun í "Ventil/Poka". Útkoman var áhugaverð þar sem það er nánast ómögulegt að fara í það ástand og setja sig í sömu stellingar og fyrir 20 árum.
Stafrænn Hákon hefur ekki setið auðum höndum síðustu 20 árin og hefur hljómsveitin gefið frá sér 7 hljóðversplötur.
"Gler/Hanski" hljómar því mun frekar eins og hljómveitin hefur gert síðustu árin. Það má því segja að hér sé um einhverskonar framhaldssögu að ræða, gefin út 20 árum seinna.