Fréttatilkynning
KORTER Í SÓL
Fimmtudaginn 4. febrúar frá kl. 17:00 til 21:00 opna Markús Bjarnason og Árni ÞórÁrnason myndlistarsýninguna „Korter í sól“ í Núllinu Gallerý, Bankastæti 0. Sýninginstendur til sunnudagsins 7. febrúar. Opið er frá klukkan 11:00 til 20:00.
Korter í sól er skírskotun í bið okkar eftir bjartari tímum. Einnig hljómar korter í sól eins og Kortisól sem er lífsnauðsynlegt hormón í líkama okkar. Kortisól er oft nefnt streituhormónið en bæði hefur of mikið og of lítið magn slæm áhrif. Jafnvægi í framleiðslu þess er afar mikilvægt. Undafarið ár hafa tilfinningar og vonir okkar allra verið í hálfgerðum rússibana. Allir hafa búið við mikið álag og stress vegna heimsfaraldurs. Mismikil einangrun, sóttkví og bóluefni og herða og slaka til skiptist hefur haft gríðarleg áhrif á andlega líðan allra jarðarbúa. Erfitt getur verið að finna jafnvægi á slíkum tímum.
Tíminn sem hefur myndast í einangrun, sóttkví og minnkandi félagslegra athafna er tími sem getur verið notaður til þessa að kafa dýpra inn í undirmeðvitundina og mannlegar tilfinningar. Árni Þór og Markús hafa báðir verið að skoða þetta ástand með ólíkum hætti. Aðstæður settu ákveðnar skorður á allt, en á sama tíma urðu til nýjar leiðir til sköpunar og hvernig lífinu er lifað.
Sýningin átti að vera seinasta haust en var frestað vegna bylgju þrjú í faraldrinum hér á landi. Nú sér loksins fyrir endann á þessu og nafnið Korter í Sól á ennþá betur við þar sem sól fer hækkandi á lofti og von er á bjartari tímum.
Markús sýnir misóræðar súrrealískar línuteikningar unnar með tússi og fleiru. Árni Þór sýnir myndir unnar m.a. í sóttkví hér á Íslandi þar sem hann neyddist til þess að vinnafjarri stúdíóinu sínu.
UM LISTAMENNINA
Árni Þór Árnason er myndlistarmaður sem útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2007. Hann vinnur nú og starfar í Svíþjóð. Í gegnum tíðina hefur hann unnið með ólíka miðla en hugmyndin um málverkið sjálft, hlutverk þess og tilgang markar endurtekið stef í verkum hans. Hann leitast oft við að finna nýjar aðferðir til þess að kljást við hugmyndafræði málverksins.
Erum við að bíða eftir því að allt verði í lagi? Á sama tíma og við lifum á þessum fordæmalausu tímum erum við mjög meðvituð um þetta fordæmalausa ástand sem við erum í. Kvíðum, spekúlerum og ringulreiðumst í núinu og yfir því sem koma skal. Þessi heimsmynd, sem við lítum á sem heldur óraunverulega eða allavega tímabundna, er mögulega komin til þess að vera.
Meðvitund um breytileika nútímans hefur skapað margvíslega hugarheima. Í verkum Árna Þórs á þessari sýningu vinnur hann með þessa breyttu heimsmynd með því að leggja áherslu á mannlega þáttinn sem þetta ástand hefur leitt af sér. Með teikningum kallar hann fram þessa áður óþekktu tilfinningu sem við erum flest okkar að upplifa innra með okkur. Þessar tilfinningar eiga fyrir honum rót sína að rekja í þögninni, rólegheitunum og tímanum sem við, flest okkar, allt í einu höfum. Tími sem við erum skikkuð til að eignast. Í rauninni tími sem við vissum ekki að væri til staðar, tími sem var áður uppfylltur. Spurningar vakna upp í sambandi við hvað maður eigi að gera við þennan tíma.
Ein serían á sýningunni saman stendur af 6 verkum sem nefnd eru : „Sóttkví 1 / dagar 1-6“.Hver og ein mynd var unnin yfir einn dag í sóttkví. Myndirnar lýsa því ástandi og tilfinningum sem áttu sér stað innra með listamanninum á hverjum degi fyrir sig. Biðin eftir því að fá að hitta sína nánustu.
Markús Bjarnason er tónlistarmaður í Reykjavík og hefur starfað og gefið út með fjölda hljómsveita aðallega í jaðarrokktónlist ýmiskonar. Einnig hefur hann undanfarin ár gefið út sólóefni undir eigin nafni.
Alla tíð frá því hann man eftir sér hefur hann teiknað línuteikningar og þá aðallega á sama tíma og þegar hann átti að vera gera eitthvað annað. Á menntaskólaárum hélt hann eina myndlistarsýningu og eina samsýningu sem samanstóð af glósuteikningum eða spássíuteikningum samnemenda og vina. Tónlistarástríðan tók þó fljótt algerlega yfir þó svo að hann hafi alla tíð teiknað og þá aðallega spássíuteikningar og á bréfsefni tilfallandi hér og þar.
Undanfarin misseri varð þó breyting á og fannst honum einhverskonar valdi hafa verið náð á stílnum og auðveldara að klára verk eða gera einbeittari teikningar en oft áður. Þetta gerist á svipuðum tíma og allt tónleikahald liggur í dvala vegna heimsfaraldurs og fólk er mestan partinn heima hjá sér og allt samfélagið fór í hægagang. Ákvörðun var tekin að teikna fyrir sýningu í framtíðinni sem verður nú að veruleika í Gallerý Núll.
Um er að ræða teikningar þar sem engin eða lítil hugsun eða ákvörðun er um hvað skal teikna - bara byrjað. Línan hefur síðan áhrif á það sem kemur í kjölfarið. Augað er sífellt að leita að mynstrum og andlitum eða formum sem það þekkir frá fyrri reynslu. Oftar en ekki kemur eitthvað óvænt í ljós úr undirdjúpum meðvitundarinnar. Línan er síðan oft endurnýtt sem partur af fleiri en einu viðfangi.
Nýlega gaf Markús út litabók fyrir fullorðna og hefur byrjað að nota liti í auknum mæli í myndunum.